Gio Ju dansar við safnið

Gio Ju dansar við safnið

22/08/2018

2Gio Ju frá Suður Kóreu er nútímadansari og gjörningalistamaður sem sérhæfir sig í butohdansi. Hún mun fremja dansgjörning við Húsið, laugardaginn 25. ágúst kl. 16 á sama tíma og listasýningin Stakkaskipti opnar.

Hún  heimsækir nú Ísland í fyrsta sinn en hún hefur tekið þátt í fjöldann allan af listaviðburðum víða um heim. Frá árinu 2011 hefur hún búið í Indlandi og setti á fót dansskóla þar sem hreyfilist og tjáning í dansi er kennd sem lífsstíll.  Gio Ju hefur dansað með danshópum, stórum og smáum, en einnig unnið með listamönnum sem koma úr ólíkum listgreinum og dansar þá oft á tíðum ein. Á Eyrarbakka vinnur hún með Ástu Guðmundsdóttur listakonu og hönnuði sumarsýningar safnsins. Dansverk Gio Ju eru ávallt einstök og tengd inní aðstæður hverju sinni. Það verður því afar áhugavert að sjá hvernig hún tvinnar sína list saman við andrúm byggðasafnsins.

Samhliða dansviðburðinum er opnun listasýningarinnar Stakkaskipti þar sem fjórar ólíkar listakonur sýna verk sín í fjárhúsi Hússins. Þetta eru þær, Halla Ásgeirsdóttir keramiker, Halla Bogadóttir gullsmiður, Helga Ragnhildur Mogensen skartgripahönnuður og Margrét Birgisdóttir myndlistarmaður. Allir eru velkomnir.